....og svo ætlaði ég að gerast hestamaður!

Það var einhverntíma, veturinn eftir að  ég fermdist að faðir minn sagði mér að Haraldur gamli á Eyjólfsstöðum hefði verið að bjóða sér veturgamlan fola, efnilegasta og eigulegasta grip. Pabbi spurði mig hvort ég vildi ekki bara nota fermingapeninginn minn til að kaup folann. Ekki man ég nú neinar tölur í þessu sambandi en þó man ég að mest allur fimmþúsundkallabúnkinn sem ég fékk í fermingagjöf færi þá í þessi kaup.

Jújú, ég var svosum alveg til í það. Pabbi hafði hvort eð er tekið búnkann af mér og lagt hann einhversstaðar inn, sjálfast í Kaupfélagið og ég sá ekki né naut tilfinningarinnar að vera ríkur maður og geta fundið svolítið til mín. Því gat ég svosum alveg eins keypt folann og gerst hestamaður, þetta var jú sagt mikið gæðingsefni og margir gæðingar höfðu komið frá honum Haraldri, var mér sagt.

Það var því úr að ég keypti folann og heim kom hann nokkru síðar. Fallegur var hann því var ekki að neita jarpur,  hnarrreystur og tignarlegur. Nú var bara að finna nafn á gæðinginn og það var sko ekki auðvelt. Svona gæðingur átti eitthvað betra skilið en bara "Jarpur" Eitthvað drógst nú að nægilega gott nafn kæmi upp í hugann á mér og þær tillögur sem ég fékk voru heldur ekki nægilega góðar að mínu mati.

Þegar fráleið þá fór ég í skóla og lítið varð úr að ég sinnti vini mínum. Frændur mínir á Brekku tömdu hann og sýndu hann eitthvað á mótum. Nokkrum sinnum fór ég á bak honum, í gegnum árin og þá helst ef fór í göngur á haustin. En þrátt fyrir fögur fyrirheit þá varð nú harla lítið úr að ég yrði hestamaður og gæðingurinn minn góði, Jarpur,  átti náðuga ævi og var sleginn af og grafinn í túnfætinum heima tuttugu vetrum eftur að ég eignaðis hann.

En alltaf furðaði ég mig jafn mikið á og skildi ekkert í og það var það, hvernig í ósköpunum hann faðir minn fékk þá flugu í höfuðið að gera úr mér hestamann....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er aldrei of seint að læra ríða og eignast hestabúgarð... allt spurning um vilja

Dísa skvísa (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband