Hr. Lappi
Miðvikudagur, 23. maí 2007
Þegar ég var að alast upp heima í Holti var að sjálfsögðu alltaf hundur á heimilinu. Sá síðasti og einna lengst var Lappi. Góðlegur og ljúfur hundur sem var allra yndi. Auðvitað var hans hlutverk, eins og annarra hunda til sveita, að verja túnin ókunnugu búfé, hjálpa til við að rekstur gripa og svo auðvitað til smölunar á haustin.
Eflaust var það einlægur ásetningur Lappa á hvolpa og ungdómsárum að standa sig í stykkinu. Amk gjammaði hann nóg og var duglegur að hlaupa ef honum var sigað, þó svo oftar en ekki hann gerði meir óskunda en gagn, sennilega vegna ungs aldurs og reynsluleysis.
Ekki man ég hvernig málin þróuðust þannig að Lappi breyttist úr ekta sveitahundi yfir í að vera ofdekrað gæludýr. Sennilega hefur þörfin fyrir krafta hans minnkað með fækkun fjár og að lokum þess að jörðin varð fjárlaus en allavega var hann allt í einu orðinn svo ofhaldinn að hann fór að láta eins og hann væri aðalpersónan á heimilinu.
Hann hætti alveg að sinna útköllum t.d. ef senda átti hann á fé í túninu og maður sigaði honum af stað þá bara brosti hann sínu blíðasta og lagðist á hlaðið þar sem sólin skein skærust og lét sér líða vel. Ef eitthvað varð til að styggja rollurnar var það helst hávaðinn í manni sjálfum.
Hann fluttu úr fjósinu og inn í íbúðarhúsi, nokkuð sem engum hundi fyrir hans tíð hafði leyfst, hann át og dafnaði með hverjum deginum sem leið og gerði hellingskröfur til þess sem fyrir hann var borið. Til að mynda þýddi ekkert orðið að bera fyrir hann afganga frá okkur mannfólkinu, slíkt virðingarleysi lét hann ekki bjóða sér. Nei það var farið að kaupa handa honum hundamat. Nokkuð sem hafði ekki verið gert fyrir nokkurn hund fyrir hans tíð. Meira að segja pabbi heitinn, sem var af þeirri kynslóðinni sem ekki eyddi í óþarfa, og keyptur hundamatur var sko óþarfi, keypti orðið mat í hundinn.
Toppurinn á virðingu sem Lappa var sýnd held ég samt að hafi verið þegar einhverju sinni að verið var að borða kvöldmat sem eflaust hefur verið settur sama úr afgöngum sem mamma hefur ætlast til að við kláruðum, henni finnst hreinlega ljótt að henda mat. Jæja eitthvað var eftir í einhverri skálinni og mamma sem var farin að tína af borðinu, ýtir skálinni að pabba og segir -Æji Bragi reyndu nú að klára þetta, það þýðir ekkert að gefa Lappa þetta, hann vill það ekki!!
Athugasemdir
vá - Lappi hefur verið æði
halkatla, 23.5.2007 kl. 15:52
Almennilegur hundur ! Kann að láta sér líða vel.
Anna Einarsdóttir, 23.5.2007 kl. 17:12
Já Lappi kunni að lifa lífinu og hann var æðislegur
Arnfinnur Bragason, 23.5.2007 kl. 20:33
Takk fyrir söguna um Lappa, ég man vel er hann kom fyrst í Holt. Jónía heitin frá Sólbrekku hélt á honum upp veginn heima og ég man vel hversu spenntir ég og litlibróðir vorum.
Mig minnir reyndar Lappi éta flest sem að kjafti kom, flögur súkkulaði og þess háttar. Sá réttur sem mamma sagði að ekki þýddi að gefa Lappa var sætsúpa og skil ég hann ósköp vel.
Ég held að Lappi hafi verið um 15 ára er hann lést og held ég að allir í fjölskyldunni geti verið sammála um að hann var einn skemmtilegasti hundur er nokkru sinni var á heimilinu
Davíð Bragason, 24.5.2007 kl. 14:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.