Partý í maganum
Föstudagur, 31. ágúst 2007
Sat á barnum um daginn og var búinn að innbyrða nokkra skota. Allt var með kyrrum kjörum í maganum enda rólyndi skotanna allgjört. Engu breytti þó nokkrir hollenskir Holseinar kæmu í heimsókn og virðuleikinn jókst bara við komu enska ginsins.
En maginn vildi fjör og bauð því amerískum Bud og áströlskum Foster að kíkja inn og þegar franska rauðvínið kom dansandi inn fóru hlutirnir að gerast.
En eins og þar sem margir koma saman þá vill oft slettast upp á vinskapinn og af einhverjum völdum á lenti skotunum saman við Budinn og ginið virðulega stóðs ekki mátið að taka þátt í erjunum. Svo að á tímabili þá hugðist Fosterinn og rauðvínið yfirgefa samkvæmið en létu þó tilleiðast að staldrar aðeins lengur við að beiðni magans.
Heilinn sem hafði fylgst með partýinu um stund tjáði maganum að sér fyndist nóg komið en maginn var því ekki sammála.
-Þetta verður í fínu lagi, sagði hann. Fjörið er rétt að byrja og enn er nægt rými fyrir fleiri sem vilja koma
-Þetta endar með ósköpum, andmælti heilinn.
Maginn hlustaði ekki og þegar einn aumur tequila bankaði upp á fannst maganum að það hlyti að vera í lagi
-Rólegur nú, tequila eru lúmskir gæjar, sagði heilinn, þeir koma aldrei einir.
-Einn teuquila, ekkert mál svaraði maginn.
En viti menn um leið og þessi eini slapp inn komu bræður hans átta í halarófu á eftir.
Hafi verið fjör fyrir þá jókst að um helming við komu þessara fjörkálfa og að nokkrum mínútum liðnum sauð upp úr og maginn fékk nóg.
-Út með ykkur öllsömul og það á stundinni, öskraði hann. Og þar sem aðeins ein útgönguleið var opin, sú sama og allir komu inn um þá ruddust líka allir út um hana í einu.
Hálftíma síðar voru allir komnir út og maginn orðinn tómur og samþykkti aumur og beygður að hlýða framvegis heilanum. Ekkert partý!.... En svo er aðeins spurning hversu lengi hann heldur það heit.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Hahahahaha Helv. góð færsla. Og fróðleg ! Ég vissi ekki að teuquila ætti átta bræður.
Anna Einarsdóttir, 1.9.2007 kl. 14:23
Held þeir séu í raun miklu fleiri en í þessu tilfelli sluppu þetta margir inn
Arnfinnur Bragason, 1.9.2007 kl. 17:58
... hrikalega góð frásögn og ekki laust við að maður fengi aðeins í magann við lesturinn
Brattur, 2.9.2007 kl. 08:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.