Strákur ertu úr Mosó?

Kíkti við á hverfispöbbnum eftir vinnu á laugardagskvöldið. Fastakúnnarnir voru mættir og allt eins og maður bjóst við. Var að velta fyrir mér að fara heim þegar þar dúkkar uppi maður á mínum aldri (örlítið eldri) og við förum að spjalla saman. Hann var á leiðinni á Players og úr var að ég skellti mér með honum.

Eftir að hafa setið þar nokkra stund og hlustað á hljómsveitina, sem var mjög þétt og bara þrusu góð og horft á kvenfólkið (auðvitað) varð mér á orði að mér fyndist eins og þetta væri nokkurs konar markaður. Konur að dansa saman og umhverfis karlmenn að mæna  þær út.

-Já það er ekkert spennandi í gangi hér, sagði kunningi minn og vildi að við færum eitthvað annað.

Ég var nú frekar dræmur  enda búinn að mæna út nokkrar huggulegar konur sem  mér fannst, en kunningi minn var harðákveðinn svo ég lét tilleiðast og að hans tillögu var stefnan tekin á Kringlukránna.

Hafi manni fundist Players ekki vera spennandi kostur þá veit ég ekki hvaða orð ætti að nota um Kringlukránna. Ég var örugglega langyngstur þarna og sándið í hljómsveitinni var eins og úr gömlu fermingagræjunum mínum.

Þar sem við vorum nú komnir á staðinn var ekki um annað að ræða að setjast niður og fá sér einn kaldan og fylgjast með því sem fram fór.

Ekki höfðum við lengi setið þar en að borðinu kemur eldri maður sem tjáði okkur að hann væri gamall sjómaður og vildi endilega segja okkur hetjusögur af sjónum. Eitthvað sem ég var ekki í stuði til að hlusta á í þetta skiptið

Ég tók eftir að á aðra höndina vantaði á hann tvo fingur svo ég spurði hann hvort hann hefði skilið þá eftir úti á sjó.

Jú í spilinu á einhverjum togara sem ég kann ekki að nefna höfðu þeir lent. - En ég er nú ekki verri maður fyrir það, sagði hann.

-Nei, ekki verri, svaraði ég, en minni maður hlýturðu að vera, sagði ég og þóttist ógurlega fyndinn

Hann skildi ekki húmorinn og settist á næsta borð og horfði það sem eftir lifði kvöldsins á mig augum sem ég gat ekki túlkað öðru vísi en hann vildi  mér eitthvað illt.

Nokkru síðar vatt sér að mér kona sem var amk tuttugu árum eldri en ég og spurði mig

-Strákur, ertu nokkuð úr Mosó!!!!!

Ekki gat ég játað því og sem betur fer datt trommuleikaranum í hug að taka sóló á tómu tunnurnar sínar þannig að ég missti alvega af hvað konan hafði að segja í framhaldinu.

Ég bara man ekki eftir hvenær kona kallaði mig síðast strák!

Ég brosti bara mínu blíðasta til hennar og svaraði einhverju óskiljanlegu og dreif mig að ná í leigubíl til að skutla mér heim og ákvað með sjálfum mér að kíkja næst á Kringlukránna í kringum 2030


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnarsdóttir

Raunsönn og sorgleg lýsing. Og þú ert eiginlega of gamall fyrir Players líka, taktu Thorvaldsen á þetta með bros á vör ...

Rúnarsdóttir, 12.7.2007 kl. 09:52

2 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Thorvaldsen er fínn, kíki þangað stundum.. en annars er ég lítil miðbæjarrotta

Arnfinnur Bragason, 12.7.2007 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband